Gugga dagMAMMA
Um helgina voru 5 ár frá því að ég og Auður stóðum í litlu herbergi á Landspítalanum og horfðum á Guggu okkar liggja meðvitundarlausa og hvítgula í litlu rúmi. Ég man svo vel eftir hryglunni í andardrættinum... djöfullegt...
Við stóðum og héldum í hendurnar hennar og ég gat ekki sagt neitt, sem betur fer er Auður meira í tilfinningatalinu, og hún sagði Guggu að við elskuðum hana, að við vonuðum að henni liði bráðum betur...
Ég vonaði að þá myndi Gugga bara koma heim og allt myndi lagast, en ég vissi að til að henni myndi líða betur þyrfti hún að fá að fara, ég hugsaði til hennar að það væri í lagi, ég skildi hana og elskaði, myndi sakna hennar og hugsa til hennar.
Samt brá mér þegar síminn hringdi snemma um morguninn 6. febrúar 2001, og Auður sagði mér að Gugga okkar hefði kvatt heiminn. Guð, hvað ég öskraði og grét, ég hékk í mömmu og hélt ég myndi springa af sorg!
Af einhverjum ástæðum ákvað ég að fara í skólann, ég þurfti að fara með fyrirlestur í dönsku og fullvissaði mömmu um að ég og stelpurnar sem voru með mér í hóp myndum falla ef ég mætti ekki... Hvað maður getur stundum verið klikkaður :/
Ég fór í skólann, sagði stelpunum fréttirnar og var bara róleg... Svo hitti ég Berglindi á Marmaranum, og þá brast hugrekkið, ég fór að háskæla, Berglind dró mig út og hélt utan um mig, fór svo með mig upp á skrifstofu og sagði konunum þar að ég þyrfti að fara heim, núna!
Ég hringdi í pabba, sagði honum fréttirnar og hann kom og sótti mig, við keyptum súkkulaði og hann skutlaði mér heim til Auðar...
Ég man ekki hvað við töluðum um, eða hvort við höfum talað eitthvað... Dagurinn er bara ein móða, og sárt að hugsa aftur. En ég veit að við fórum upp á Barónsstíg til Smára, og sátum þar með honum og Fjólu, kannski voru fleiri, en ég man eftir þeim þarna.
Ég man samt að sólin skein allan þennan dag, alveg eins og í dag, og það var gott að vera úti... Mér fannst það huggun, eins og sólin væri þarna til að bjóða Guggu velkomna.
Eftir þetta var ég bara róleg, sýndi ekki sorgina mikið nema við kistulagninguna og í jarðarförinni, þá var ég grátandi allan tímann og get ekki talað við neinn, sneri mér undan þegar fólk sem Gugga hafði passað fyrir og ég þekkt lengi reyndi að faðma mig og hugga, eða leita huggunar.
Þetta var mikið sjokk fyrir alla, það bjóst enginn við því að Gugga myndi nokkurn tímann deyja, hún var alltaf til staðar og gerði allt fyrir alla, og alltof oft fékk hún ekki einu sinni þakklæti í staðinn.
Hún var svo góð og átti svo mikla ást fyrir öll börnin sem hún “átti”, fjölskylduna sem sniðgekk hana langoftast og fyrir vini sína sem margir gáfu henni bara skít og komu henni í vandræði.
Eftir jarðarförina fékk ég að vita að Gugga hefði verið veik lengi, og ekki sagt neinum frá því, nema einni manneskju sem sá ekki ástæðu til þess að segja Smára eða neinum frá þessu. Góð vinkona það!?! Bara af því að hún var ekki á landinu fannst henni í lagi að leyfa Guggu að deyja einni?
Gugga vissi í 10 ár að hún væri að fara að deyja, og átti þetta leyndarmál ein með sjálfri sér og gerði ekkert, drekkti sér bara alltaf lengur og lengur í vodkaflöskunni.
Hún reyndi enga lækningu, var bara heima með dauðadóm á bakinu.
Það er ekki skrítið þá að hún hafi drukkið, ég get ekki ímyndað mér hverju þungt þetta hefur legið á henni, og alltaf kaus hún að þegja og blanda sér meira í glasið.
Gugga átti svo erfiða ævi, ég vorkenndi henni alltaf svo mikið. Samt var hún svo dugleg og lét aldrei erfiðleikana sína bitna á börnunum eða foreldrunum, bara sér og þeim sem elskuðu hana mest...
Sorginni eftir andlát Guggu er ég ennþá að vinna úr, þetta hefur eitrað líf mitt of lengi, ég er bara svo vanmáttug gangvart eigin tilfinningum.
Í langan tíma var alveg sama hvað allir reyndu að gera fyrir mig, eða sögðu... Mér fannst enginn geta skilið það að þegar að Gugga dó missti ég móður, ég var svo eigingjörn að ég hætti að virka almennilega.
Stakk mér inn í nýjan vinahóp, djammaði og djúsaði og skemmti mér vel. Setti skólann í allra seinasta sæti. Talaði ekki við fjölskylduna mína, fannst þau svo ömurleg, skildu þau ekki neitt? Mér leið ömurlega allan þennan tíma, en brosti alltaf og grét ekki, nema þegar við mamma rifumst og mér fannst hún ósanngjörn.
Ég var þunglynd og erfið, fór til sála og geðlækna, ég vildi bara ekki hjálp.
Alltaf þegar að það kom eitthvað eða einhver nýr inn í líf mitt fannst mér það eða sú manneskja vera að bjarga mér, Gugga var ekki tengd þessu nýja. Það var ekki verið að minna mig stanslaust á hana. Ég og Auður hættum að tala um Guggu þegar við vorum saman, nema þegar við fórum upp í kirkjugarð eða vorum hjá Smára.
Svo kom Raggi, og þá leið mér vel... Eins vel og áður, og í hjartanu líka. Ég vissi að þarna væri ég að komast á rétta braut, það tók samt tíma fyrir mig að finna hana alveg.
Ég enduruppgvötaði fjölskylduna mína, mömmuna sem ég á og pabba, þau voru bæði þarna ennþá og þau er bæði jafn góð og áður en Gugga dó. Og þau elska mig, þrátt fyrir öll leiðindi og vesen.
Ég sá að gömlu vinkonurnar voru þær bestu og finnst æðislegt að hitta þær og vera með þeim, þær muna allar eftir Guggu :)
Ég skil núna að það sem var að, var ekki bara það að Gugga dó. Ég var líka svo reið við hana, alheiminn og Guð...
Hvernig gat hún gert okkur þetta? Undirbúið dauða sinn í 10 ár og svo bara farið allt í einu?
Af hverju sáum við ekki að hún var ekki bara alkóhólisti? Hún var líka líkamlega veik, og enginn sá það? Erum við öll svona heimsk og blind?
Mér er runnin reiðin...
Ég er hamingjusöm núna...
Ég vildi bara óska þess að Sigurður hefði haft tækifæri til þess að fara í pössun til Guggu, eins og við ákváðum þegar ég var svona 5 ára.
Ég vildi bara að Gugga hefði séð hann nýfæddan og getað haldið á barnabarninu sínu.
Ég vildi bara að Gugga hefði komist í skírnina og verið stolt af mér...
Eða... ég vildi að ég hefði getað séð hana við öll þessi tækifæri, ég veit að hún var þarna, og er hérna... Hún verður alltaf hérna...
Við Auður ætlum að láta útbúa fallegan stein til að setja á leiðið hennar Guggu í sumar, ég hlakka til :)
Gugga, í dag ætla ég að vera leið, en annars þarf ég þess ekki lengur. Ég elska þig og sakna þín, og ég hlakka til að sjá þig aftur eftir mörg, mörg, mörg, mörg ár...